Forsíða   /   Jóhannes Reykdal   /   Fjarðarsel   /   Sogsvirkjun   /   Dagskrá   /   Greinar    

Fjölbreytt og margvísleg verkefni
- Eiríkur Bogason framkvæmdastjóri Samorku

Samorka eru samtök hitaveitna, rafveitna og vatnsveitna á Íslandi. Samtökin urðu til árið 1995 þegar Samband íslenskra rafveitna og Samband íslenskra hita- og vatnsveitna sameinuðust. Aðilar að samtökunum eru 25 hitaveitur, 9 rafveitur og 24 vatnsveitur. Einnig eru 5 aukaaðilar sem hafa svokallaða takmarkaða aðild.

Framkvæmdastjóri Samorku er Eiríkur Bogason. "Það má eiginlega segja að drifkraftur að stofnun Samorku hafi verið sú þróun um land allt að rafveitur og hita- og vatnsveitur voru víða í sveitarfélögum að sameinast í eitt fyrirtæki. Þar með voru hagsmunir þessara tveggja landssambanda orðnir svo samtvinnaðir að eðlilegt þótti að sameina þau. Enda hefur komið í ljós að mikil hagkvæmni náðist með þessari sameiningu," segir Eiríkur.

Margvísleg verkefni
Hjá Samorku starfa 5 manns við hin ýmsu verkefni sem þar koma inn á borð. "Það er nú þannig að bæði vinnum við verkefni innanhúss hjá okkur og líka stýrum við einstökum verkefnum sem unnin eru annars staðar," segir Eiríkur og bætir við að miklu máli skipti að utanumhald og yfirsýn verkefna sé að finna á einum stað. Hjá Samorku er unnið að mörgum og fjölbreyttum verkefnum. "Hjá okkur eru unnar og gefnar út hinar ýmsu reglur og skilmálar sem gilda fyrir allt landið og auðvelda mönnum vinnuna. Þetta eru t.d. tengiskilmálar rafveitna, verklagsreglur við tengingu vatns- og hitaveitna í sumarbústaðahverfum og margt fleira. Þetta felur í sér að nákvæmlega sömu reglur gilda hvort sem verið er að tengja vatn í bústað í Fnjóskadal eða Grímsnesinu og það sama á við um rafmagnið," segir Eiríkur. "Einnig stendur Samorka að sameiginlegum útboðum og og með þeim ná veiturnar fram miklum sparnaði. Við erum líka með námskeiðahald og handbókaútgáfu og allt miðar þetta að því að samræma verklag á milli veitna og landshluta," bætir hann við.

Alþjóðlegt samstarf
Hluti af þeirri vinnu, sem fram fer hjá Samorku, eru tengsl við sambærileg fyrirtæki og samtök erlendis. "Við höfum ekki bolmagn til að framkvæma allar þær rannsóknir sem æskilegt væri að gera og því sækjum við í brunn kollega okkar annars staðar í heiminum og fáum frá þeim niðurstöður ýmissa rannsókna. Einnig tökum við þátt í að setja alþjóðlegar reglur, t.d. fyrir rafmagn, og er Samorka aðili að alþjóðlegum samtökum á Norðurlöndum og Evrópu, bæði á svið raforku- og hita- og vatnsveitna," heldur Eiríkur áfram. Fram undan er stórt alþjóðlegt verkefni hjá Samorku en í haust taka Íslendingar við rekstri skrifstofu Alþjóða jarðhitasambandsins til næstu 5 ára. Síðastliðin ár hefur skrifstofan verið starfrækt á Ítalíu. "Það er mikill fengur fyrir okkur að fá að taka að okkur rekstur þessarar skrifstofu en það má segja að hún sé hjartað í alþjóðajarðhitamálum. Þetta gefur okkur aukna möguleika á því að breiða út íslenska þekkingu á sviði jarðhitamála," segir Eiríkur og bætir við að gífurlega miklir möguleikar séu hér innanlands á notkun jarðhita til framleiðslu rafmagns og enginn vafi leiki á að lögð verði áhersla á það svið á næstu árum.