Forsíða   /   Jóhannes Reykdal   /   Fjarðarsel   /   Sogsvirkjun   /   Dagskrá   /   Greinar    

Bíldsfell í Grafningi - fyrsta rafvædda sveitabýlið
- eftir Ólaf H. Óskarsson

Allt frá því, er líf kviknaði á jörðu hér, hafa allar lífverur leitað ljóssins og nærst af því. Þar er maðurinn engin undantekning, nema síður sé. Frá þeirri stundu, er frummaðurinn tók eldinn í sína þjónustu fyrir þúsundum ára, hefur maðurinn reynt að bægja myrkrinu frá sér og sínum, láta ljósið sigra nóttina, lengja daginn með ljósi. Fyrsti ljósgjafinn af manna völdum hefur eflaust verið varðeldur frummannsins, sem stugga skyldi óvættum næturmyrkursins frá. Síðan hefur maðurinn reynt að bera með sér birtu ljóssins inn í híbýli sín eða á ferð um myrkvaða stigu.

Þróun lýsingartækninnar var hægfara framan af, en með tilkomu glóðarperu Thomas A. Edisons, hinn 21.10.1879, sem fékk orku sína frá hinu dularfulla rafmagni en ekki frá venjulegu eldsneyti, tók lýsingartæknin stórstígum framförum. Það er snöggtum auðveldara og þægilegra að "kveikja ljós" á glóðarperu, en að burðast með þunga og óþjála olíulampa, eins og tíðkaðist í fremstu tækniþjóðfélögum þeirra tíma. Fyrsta raforkuverið, sem seldi almenningi raforku til ljósa, var tekið í notkun árið 1882 í New York. Á næstu árum rak hvert stórátakið annað á sviði raflýsingartækninnar. Hér á Íslandi hófst fyrsta hreyfingin í rafvæðingarmálum landsins með Frímanni B. Arngrímssyni, sem árið 1894 hélt í Reykjavík fyrirlestra um ágæti þessara galdraljósa og raforkunnar í heild. Hann vildi láta virkja fallorku Elliðaánna og lýsa og hita upp Reykjavík með raforku þaðan. Árið 1899 mun fyrsta "rafstöðin" hérlendis hafa tekið til starfa í vinnustofu Eyjólfs Þorkelssonar úrsmiðs, að Austurstræti 8 í Reykjavík. Ísafold var það til húsa og fengu bæði prentsmiðja hennar og skrifstofa rafljós frá þessari litlu stöð. Næsta skrefið var stigið árið 1903, er rafali var tengdur við gufuvél í Klæðaverksmiðjunni Iðunni í Reykjavík. Frá þessum rafala fengu ljósaperur raforku, sem þannig lýstu upp verksmiðjuna. Fyrsta vatnsaflsrafstöðin á Íslandi tók til starfa 12. desember 1904 í Hafnarfirði. Vilja menn síðan miða við þá dagsetningu upphaf raforkualdar á Íslandi. Jóhannes Reykdal, trésmiður, stóð að þessu framfararmáli, en honum til halds og traust var Halldór Guðmundsson, raffræðingur, sem var einn helzti frumkvöðull rafmagnsins á Íslandi fyrstu árin. Voru þá aðeins liðin 22 ár frá stofnun rafstöðvarinnar í New York, sem áður er getið. Má það teljast fljótt brugðið við af Íslendingum, því oft hefur liðið mannsaldur eða meir, áður en erlend nýjung hefur náð fótfestu hérlendis.

Hér á eftir verður lítillega skýrt frá fyrstu rafstöðinni, sem tekin var í notkun á íslenzkum sveitabæ.

II

Guðmundur ÞorvaldssonBíldsfell í Grafningi í Árnessýslu var fyrsta sveitabýlið á Íslandi, sem raflýst var frá örsmárri vatnsaflsstöð. Bóndinn á Bíldsfelli, Guðmundur Þorvaldsson, f. 25.11.1873 að Geitdal í Skriðdal í S-Múlasýslu, hóf þar búskap árið 1910. Þegar Guðmundur settist þar að, var lýsing með raforku nær óþekkt fyrirbrigði hérlendis, eins og rakið hefur verið hér að framan. Þá var vatnsaflsstöðin í Hafnarfirði aðeins sex ára gömul. Á ferðum sínum vestur yfir Hellisheiði hefur Guðmundur eflaust kynnzt hinni hafnfirzku rafstöð, og þá hefur áhugi hans vaknað fyrir því, að gera slíkt sama og Jóhannes - notfæra sér aflið í bæjarlæknum til raflýsingar á bænum.

Þannig háttar til við Bíldsfell, að nokkrar nafnlausar uppsprettur eiga upptök sín undir hól skammt norðan við bæinn. Þessar lækjarsytrur hafa nokkuð jafnt vatnsrennsli árið um kring, frjósa ekki (kaldavermsl) og renna í suðurátt eftir grunnu og grasi grónu gili fyrir vestan bæinn. Á tiltölulega stuttri vegalengd er fallhæðin þar nokkrir metrar.

Árið 1911 hóf Guðmundur undirbúning að því að koma sér upp rafstöð þarna í gilinu. Fyrst hlíð hann neðst í gilinu í hefðbundnum íslenzkum byggingarstíl húskofa úr torfi og grjóti. Fór Guðmundur þar að ráðum Dana nokkurs, Rostgaard að nafni, sem einnig vildi selja honum efni í rafstöðina - svo sem vatnshjól (undirfallshjól), sem verið hafði í þvottahúsi Rostgaards. Efst í brekkunni fyrir suðvestan bærinn var hlaðin stífla úr torfi og grjóti þvert fyrir gilið. Þaðan lá ofangjarðar 24 álna langur og lokaður tréstokkur að húskofanum, þar sem vatnsvélin og rafalinn voru - fékkst þannig um 7 álna fallhæð. Bræður Guðmundar, þeir Sigurður og Pétur Þorvaldssynir, aðstoðuðu hann við þessar sérstöku framkvæmdir - Sigurður hjálpaði m.a. til við torfhleðsluna, en Pétur smíðaði stokkinn og trébekk í kofann undir rafalann. Að svo búnu var þýzkur rakstraumsrafali fenginn frá Kaupmannahöfn, en hann var örsmár - aðeins ½ hestafl sem svarar um 370 W afli, en það myndi nægja einungis fimm 60 V-perum. Efni í línuna heim í bæ fékk Guðmundur í Reykjavík - eirvírinn var úr gömlum rafala, sem notaður hafði verið fyrir kvikmyndahús, en staurar og einangrar fengust hjá Landssíma Íslands. Heimlínan var um 150 m að lengd, staurar voru 4 að tölu. Vírinn var 6 mm2 að gildleika. Heima í bænum voru rúmlega tíu ljósastæði.

Jóhannes Reykdal hafði heitið því að ganga frá raflögnum innanhúss og tengingum í rafstöðinni sjálfri. Skömmu fyrir jól 1911 var allt fullbúið úr hendi þeirra bræðra, en Jóhannes var eitthvað vant við látinn og kom ekki austur að Bíldsfelli fyrr en í útmánuðum á næsta ári. Stöðin mun hafa verið gangsett í fyrsta sinn í lok febrúar árið 1912. Kostnaður við þessar framkvæmdir mun hafa numið sem næst 500 krónum - þ.e. kostnaður við rafstöðina, heimlínuna og raflagnir í bænum.

III

Rafstöðin BíldsfelliMáltækið gamla "mjór er mikils vísir" sannast hér. Þessi "ljósastöð", þótt afllítil væri, vakti athygli víða um land, og menn dreif hvaðanæfa að, til þess að sjá þetta furðuverk. Margir sneru aftur heim á leið með þann bjargfasta ásetning í huga að koma sér upp eigin rafstöð. Meðal þessara manna var Bjarni Runólfsson frá Hólmi í Landbroti, sá merki frömuður á sviði rafvæðingar íslenzkra sveita. Bjarni hefur vafalaust dregið sinn lærdóm af heimsókninni og hugsað til stærri átaka í því sviði, sem honum auðnaðist síðar að gera.

Fimm árum seinna, hinn 12.7.1914, keypti bæjarstjórn Reykjavíkur vatnsréttindi af Guðmundi, sem hann átti í Soginu. Verðið var 30 þkr., sem var talið stórfé í þá daga. Þá var Jón Þorláksson borgarstjóri Reykjavíkur.Var hér um að ræða fyrstu aðgerðir Reykvíkinga á virkjunarmálum Sogsins. Í kaupsamningnum var auk þess það ákveðið, að eigandi Bíldsfells fengi sem svaraði 10 ha rafali við bæjarvegg, ef úr virkjun Sogsins yrði.

Svo mikil var tiltrú Guðmundar á hinum "hvítu kolum" að hann lagði allt kapp á að endurbæta og stækka stöðina, svo hann gæti fengið rafstraum til suðu einnig og "til að geta sparað sauðataðið og fengið það á túnið" eins og hann segir í bréfi til Búnaðarfélags Íslands. Færði hann hugmynd sína í tal við Halldór Guðmundsson, raffræðing, sem áður er getið. Hann taldi 3 ha rafstöð nægja til allra heimilisnota, að "undanskildum þvottum og slátursuðu".

Halldór lagði til, að vatnslítil lind fyrir vestan túnið yrði leitt í gilið og djúpur skurður grafinn í áframhaldi að því. Guðmundur féllst á þessar tillögur og lét grafa um 100 m langan skurð; mesta dýpt hans var 2 m og mesta breidd 3-4 m. Svo hér var um allmikið og örðugt mannvirki að ræða og verkfærin voru frumstæð, páll og reka. Því næst var ný stífla hlaðin aðeins ofar í brekkunni og loks var nýtt stöðvarhús (sjá mynd) steypt niðri í skurðinum. Frá stíflunni var lögð 36 m lögn vatnspípa, sem veitti vatningu úr lóninu fyrir ofan stífluna að vatnsvélinni - efstu 12 m voru úr tré, síðan tók 12" rör úr steypujárni við vatninu úr tréhlutanum, en síðasta spölinn að vélunum rann vatnið um 7" járnsteypurör. "Vatnssveiflan" var úr gömlu stöðinni, en rafalinn var nýr - danskur rakstraumsrafali frá Thomas R. Thrige, 110 V og 3 ha (um 21 kW). Mælitaflan úr gömlu stöðinni var notuð áfram, en hún var send í viðgerð til Reykjavíkur en í misgáningi var hún sent til Vestmannaeyja, þar sem hún ílentist, og er hún nú með öllu glötuð. Notazt var við gömlu heimlínuna, en henni var breytt eitt og hún lagfærð. Raflögnin heima í bænum var úr tvísnúnum rafstreng sem festur var á postulínskúlur - svonefnd "völulögn" sem þá var næsta algeng gerð raflagna hérlendis. Ljósastæðin voru 14 að tölu auk tveggja í útihúsum. Ennfremur fengu 500 W rafmagnsofn og rafsuðuplata raforku frá stöðinni.

Þegar Guðmundur stóð í þessum umbótum var dýrtíð landlæg, enda hækkaði verðlag mikið eftir fyrra heimstríðið en nýja stöðin mun sennilega hafa tekið til starfa árið 1929. Kostnaður við hana mun hafa numið 4.000 krónum auk vinnu heimamanna.

Svo vönduð var öll gerð stöðvarinnar og svo nákvæmt eftirlit með henni, að hún var notuð óslitið fram til ársins 1955 eða 1956, er raforka var leidd frá Soginu að Bíldsfelli.

Guðmundur Þorvaldsson lést 12.6.1948. Guðríður Finnbogadóttir ekkja hans, fluttist til Reykjavíkur tveimur árum seinna, og þá var rafstöðin í fullkomnu lagi. Guðríður lét svo um mælt við höfund þessa greinarkorns, að hún blessi rafstöðina alltaf, því aldrei var skammdegi hjá okkur.

[ til baka ]