Forsíða   /   Jóhannes Reykdal   /   Fjarðarsel   /   Sogsvirkjun   /   Dagskrá   /   Greinar    

Rafmagnið umbylti samfélaginu
- Jóhann Már Maríusson fyrrverandi aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar

Þær létu ekki mikið yfir sér fregnirnar af því þegar sextán hús í Hafnarfirði tengdust lítilli vatnsaflsvirkjun í Hamarskotslæk í desembermánuði árið 1904 þegar fyrsti vísir að rafmagnsveitu á Íslandi tók til starfa. Landsmenn gerðu sér þó vel grein fyrir mikilvægi þessa áfanga og þeim tækifærum sem hinn nýi orkugjafi, raforkan, hafði yfir að búa. Rúmum tuttugu árum fyrr hafði hugvitsmaðurinn Thomas Edison tekið í notkun fyrstu rafveitu í heimi og þá þegar hafði áhugi Íslendinga vaknað.

Hugsjónin um raforkuframleiðslu fól ekki aðeins í sér von um birtu, yl, vélarafl og framleiðslu áburðar til ræktunar landsins, heldur gaf hún fyrirheit um framtíð þar sem óblíð náttúruöflin reyndust blessun en ekki bölvaldur. Beljandi vatnsföll sem um aldir höfðu verið farartálmi, einangrað sveitir og kostað ferðalanga lífið, yrðu senn beisluð þjóðinni til heilla. Draumurinn um rafmagnið var samofinn hugmyndinni um sjálfstætt Ísland.

Það kom í hlut atorkusamra einstaklinga og stórhuga bæjarstjórna að stíga fyrstu skrefin í rafvæðingunni. Í fyrstu var raforkan nær einvörðungu nýtt til ljósa og lítilsháttar hitunar og vélareksturs. Með tímanum jókst þekkingin á möguleikum tækninnar og notkunin varð stöðugt flóknari og fjölbreyttari.

Með aukinni sérhæfingu, umfangsmeiri virkjanaáformum og kröfum um stærri dreifikerfi og tryggari rekstur, færðist rekstur raforkukerfisins í hendur öflugra orkufyrirtækja. Í samkeppni jafnt sem samvinnu hafa þau kappkostað að þjónusta íbúa og atvinnulíf landsins. Óvíða er orkan ódýrari, öryggi kerfisins er með því sem best þekkist og engin þjóð notar meiri raforku á hvern íbúa.

Á þeim hundrað árum sem liðin eru frá því að húsin sextán komust í straumsamband í Hafnarfirði hefur íslenskt samfélag tekið stakkaskiptum. Ný tækni hefur komið til sögunnar á nánast öllum sviðum þjóðlífsins. Dregið hefur úr erfiðisvinnu, lífslíkur fólks hafa aukist og lífskjör batnað. Þáttur raforkunnar í þessum framförum er mikill. Rafmagnið hefur umbylt samfélaginu á einni öld. Íslensk orkufyrirtæki eru stolt af því að hafa tekið þátt í þessari byltingu.

Íslensku orkufyrirtækin hafa hvert á sinn hátt minnst þessara tímamóta í sögu þjóðarinnar. Strax í ársbyrjun var gefið út veglegt blað um orkumál sem dreift var með Morgunblaðinu, þar sem stiklað var á stóru í raforkusögu þjóðarinnar. Nýverið var síðan gefið út frímerki í tilefni tímamótanna. Á árinu hafa verið haldnar ráðstefnur, fundir og sýningar í tilefni afmælisins og skemmst er að minnast sýningar í Vetrargarði Smáralindar fyrir skömmu þar sem gestir gátu gengið um „hús morgundagsins” þar sem raforkan var hreyfiafl tækninýjunga. Í sumar voru allar helstu virkjanir landsins opnar gestum og gangandi. Þúsundir gesta nýttu sér þetta boð og sáu með eigin augum hvernig hugvit og tækni hafa verið notuð til þess að beisla orku fallvatnanna til hagsbótar fyrir íslenskt samfélag.

Hátíðarhöldunum lýkur í Hafnarfirði, þann 12. desember næstkomandi, þegar nákvæmlega 100 ár eru liðin síðan Jóhannes Reykdal tók í notkun fyrstu almenningsrafveituna. Við það tækifæri verður afhjúpaður minnisvarði um frumherjann Jóhannes Reykdal, auk þess sem orkufyrirtæki landsins afhjúpa táknrænt ljós sem mun loga yfir Hafnarfirði alla jólahátíðina.

- - - -
Jóhann er formaður afmælisnefndar orkufyrirtækjanna vegna 100 ára afmælis raforkuvæðingar Íslands.

[ til baka ]