Forsíða   /   Jóhannes Reykdal   /   Fjarðarsel   /   Sogsvirkjun   /   Dagskrá   /   Greinar    

Kerfið réð ekkert við eldavélarnar
- Matthías Matthíasson yfirverkstjóri segir frá vaxtarverkjum Rafmagnsveitunnar

Matthías Matthíasson rafvirkjameistari hóf störf hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1939, tæpum tveimur áratugum eftir að hún var stofnuð. Sem yfirverkstjóri fékk hann vaxtarverki kerfisins beint í æð á tímum þegar mikið gekk á og viðgerðarflokkar þurftu að mestu að reiða sig á handaflið. Matthías er 79 ára en hraustur vel, virðist mörgum árum yngri og gott ef ekki jafnfær um að handgrafa axlardjúpan skurð og forðum. Matthías hætti hjá Rafmagnsveitunni fyrir níu árum en man þessa merku tíma eins og þeir hefðu gerst í gær.

Þegar gasið hvarf
"Fyrstu rafmagnsstrengirnir voru svo grannir að þeir voru alltaf að brenna," segir Matthías um fyrstu ár sín hjá Rafmagnsveitunni. "Þeir voru bara hugsaðir fyrir lýsingu í húsum, kannski tvær eða þrjár perur í hvert hús. Til eldunar notaði fólk gas frá gasstöðinni við Rauðará. En smám saman tóku rafmagnseldavélarnar við og þá fóru strengirnir að brenna." Eftir að seinni heimsstyrjöldin braust út vænkaðist hagur margra. "Þá fóru verkamenn sem aðrir að geta keypt eldavélar. Þá brann þetta allt og það var mikið að gera í viðhaldi, nótt og dag og margar helgar. Það var alveg ferlegt. Og það var allt handgrafið, hugsaðu þér. Það var ekki til vélgrafa. Við höfðum ekki annað en loftpressur. Oft var klaki meira en metra niður í jörðina og kapallinn var á 80 sentímetra dýpi; þetta var eins og steypa. Svo þegar fór að líða á stríðsárin fór maður að sjá herinn koma með trukka með drifi, jarðýtur og vélgröfur. Þetta var allt nýtt fyrir okkur. Þegar ég byrjaði hjá Rafmagnsveitunni átti hún bara einn bíl en þegar ég hætti, 55 árum seinna, voru bílarnir 55. Það var eins og það hefði verið bætt við bíl á ári!"

Sprenging á páskum
Á stríðsárunum voru heimtaugar húsa tengdar inn á jarðstreng neðanjarðar þannig að ef ein brann í sundur varð rafmagnslaust í allri götunni. Þá gat verið erfitt að finna bilunina og þurfti oft að grafa niður á nokkrum stöðum - vitanlega með handafli. Þar sem fjöldi fólks hafði ekkert rafmagn á meðan var viðgerðin jafnaðkallandi og hún var erfið. Það var ekki fyrr en eftir stríð að hið svokallaða skápakerfi var sett upp með sérstöku öryggi fyrir hvert hús þannig að bilun á einum stað hafði ekki lengur áhrif á stóru svæði og alltaf var ljóst hvar hafði bilað.

Ein bilun er Matthíasi sérstaklega minnisstæð. "Það var á stríðsárunum. Á Brávallagötu, við Elliheimilið Grund, var spennistöð - og er enn - og þaðan lá strengur niður á Víðimel sem var ný gata. Þarna varð bilun rétt fyrir páska. Yfirmaður minn, Júlíus Björnsson, sá um að mæla út bilunina en það mældist eintóm vitleysa. Alla páskahátíðina var verið að grafa eftir þessum streng sem fæddi Víðimelinn, allt handgrafið. Hringbrautin komin í sundur og hvaðeina og í þokkabót hafði hún nýlega verið hækkuð þannig að við þurftum að grafa axlardjúpt niður að strengnum. En aldrei kom bilunin í ljós.

Þegar við höfðum staðið í þessu alla hátíðina var ég orðinn býsna þreyttur og sagði loks við Júlíus: "Þetta helvíti er ekki hægt. Nú röðum við körlunum eftir skurðinum alla leiðina og ég set inn öryggi - það voru handföng með sterkum víraöryggjum á milli. Þið fylgist svo með sprengingunni þegar skammhlaupið kemur í ljós." Ég lagðist á hnén í spennistöðinni og setti inn öryggin en þá varð þetta ægilega skot inni hjá mér svo að það brunnu af mér augnhárin og framan af hárinu á mér og ég sviðnaði allur í andlitinu. Ég skreið út og sá að það kom reykur út úr veggnum á spennistöðinni utanverðri. Bilunin var þá í veggnum á sjálfri spennistöðinni en við höfðum verið að grafa úti í Víðimel alla páskahátíðina! Þetta var eitthvað það versta sem ég lenti í.

Og svo skammirnar í fólkinu, hvurslags bannsettir drulluháleistar þessir rafmagnsveitukarlar væru! Þarna höfðu um 15 hús við Hringbrautina að sunnanverðu og eitthvað um 20 hús til viðbótar við Víðimelinn verið rafmagnslaus yfir páskana. Og ekkert gas til að notast við í staðinn. Einn hringdi heim til rafmagnsstjórans og spurði hvort hann mætti ekki fara á hótel með fjölskylduna og borða þar úr því að hann fengi ekki rafmagn til þess að elda; hvort rafmagnsstjóri skrifaði ekki upp á reikninginn! Það var ekki samþykkt heldur bara stungið upp á slátri og skyri!"

Miðuðu á þá byssum
Verkefnin þessi ár voru margvísleg. Það þurfti að endurnýja jarðkaplana; koma öllum loftlínum, sem lengi vel voru nær allsráðandi í Reykjavík, ofan í jörðina; leggja háspennulínur frá nýju virkjununum í Soginu, sem bundu loksins enda á raforkuskömmtun sem grípa hafði þurft til, og leggja rafmagn í næstu sveitarfélög og ný hverfi í Reykjavík sem byggðust upp hratt. "Vegna hersins þurftum við líka að leggja mikil kerfi, til dæmis fyrstu háspennulínuna frá Elliðaánum upp í Geitháls þar sem Bretar voru með aðalbirgðaskemmur sínar fyrir matvæli, sprengjur og fleira. Við skikkuðum auðvitað Bretann til að skaffa okkur staura! En við birgðastöðina var iðulega miðað byssum og byssustingjum á okkur, þessa eskimóa," segir Matthías og hlær dátt. "Við þekktum engar herreglur og kunnum lítið í málinu, sögðum bara: "Electric! Electric man!" Þeir hristu hausinn, vildu fá betri skýringu og stungu byssunum inn um gluggann hjá okkur. Þá þurfti að kalla til liðþjálfa eða einhvern sem vissi betur en þessir jólasveinar hvað við vorum að gera. Þetta var mikil vinna enda voru hér um 80 þúsund hermenn sem var nálægt því þrisvar sinnum fleiri en íbúar Reykjavíkur."

Skurðir á skurði ofan
Þegar Matthías hóf störf voru allar veitur bæjarins - sem nú hafa sameinast á ný í nýjum höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur -með sameiginlega aðstöðu í Barónsfjósi, á horni Hverfisgötu og Barónstígs þar sem nú er verslunin 10-11. Framkvæmdir við hinar ólíku veitur áttu það til að rekast á. Matthías minnist þess að eftir stríð olli lagning hitaveitunnar skemmdum á rafstrengjum þannig að "við fengum bilanir í kerfið í mörg ár á eftir." Þá þótti mörgum Reykvíkingum grátbroslegt hve illa gekk að samhæfa lagningu síma og rafmagns. "Þú hefur kannski heyrt brandarann, sem oft var sagður, um að Rafmagnsveitan kæmi í dag og svo Síminn á morgun þegar búið væri að loka skurðinum. Og það gerðist vissulega stundum að það var grafinn upp sami skurðurinn. Það var ansi mikill barningur hjá mér við yfirverkstjórann hjá Símanum að koma á samvinnu um þetta.

Einu sinni þegar ég gekk út frá honum eftir tilraun til þess heyrði ég hann segja við kollega sinn: "Hvern andskotann er hann Matthías að gera núna, er hann ekki eitthvað að plata okkur?" Þeir tóku þessu svona til að byrja með. Það var reyndar með ólíkindum hvað það gekk seint að ná fram samvinnu og samhæfingu um lagningu þessara kerfa. Það var gert grín að okkur fyrir vikið. Og auðvitað var þetta vitleysa. Þegar við vorum búnir að ganga vel frá raflínunni og loka skurðinum kom Síminn á eftir og mölvaði þetta allt og skemmdi! En fyrir rest náðist að breyta þessu til betri vegar og það sparaði auðvitað tugi ef ekki hundruð milljóna á ári."

[ til baka ]