Forsíða   /   Jóhannes Reykdal   /   Fjarðarsel   /   Sogsvirkjun   /   Dagskrá   /   Greinar    

Fyrstir sveitabæja á Íslandi til að fá rafmagn
- Páll Lýðsson, bóndi og sagnfræðingur í Litlu-Sandvík

Rafvæðing íslenskra sveita gerðist ekki á einni nóttu heldur er það ferill sem tók mörg ár og áratugi. Segja má að sagan hefjist á Sandvíkurbæjunum í Sandvíkurhreppi sem eru um 3 km vestan við Selfoss. Bæirnir Litla- og Stóra-Sandvík í Sandvíkurhreppi urðu þá fyrstu íslensku sveitabæirnir til að fá rafmagn frá almenningsveitum og í samtali við blaðið lýsir Páll Lýðsson, bóndi og sagnfræðingur í Litlu-Sandvík, því hvernig það kom til. Páll er fæddur í Litlu-Sandvík árið 1936, sonur Aldísar Pálsdóttur og Lýðs Guðmundssonar, bónda og oddvita Sandvíkurhrepps til margra ára. Hann var barn að aldri þegar rafmagnið kom. "Já, það var árið 1947 um sumarið að rafmagn kom hér.

Forsaga þess var að hér um slóðir var á stríðsárunum, og miklu seinna, glúrinn vélamaður, Sigfús Öfjörð Þórarinsson. Honum nægðu ekki vinnuvélaranar sem hér voru og hafði samband við fyrirtækið Smith og Norland í Reykjavík sem þá hét Paul Smith en á þeim tíma fluttu þeir inn vindmyllur. Sigfús byrjaði sem umboðsmaður fyrir Smith og Norland árið 1938 og fór að raflýsa Flóann og hafði það af að koma því máli vel á leið. Sigfús var mikill vinur föður míns og mjög áhugasamur um að koma rafmagni að Litlu-Sandvík. En áður en af því yrði hafði faðir minn tal af Magnúsi Hannessyni, rafvirkjameistara frá Stóru-Sandvík. Hann rak rafvélaverkstæðið Volta í Reykjavík og vann meðal annars að mörgum viðhaldsverkefnum uppi í Sogsvirkjun. Magnús sagði að það væri óráð að láta leggja vindmyllurafmagn hér um öll hús. Þær lagnir, sem til þyrfti þegar rafmagnið kæmi frá vindmyllum, væru óeinangraðar og gerðar fyrir lægri spennu en rafveiturafmagn og því ekki sambærilegar að gæðum við þær lagnir sem til þyrfti þegar rafmagnið kæmi frá almenningsveitum. Nær væri að koma upp dísilrafal og svo væri Sogsrafmagnið kannski að koma. Verið væri að kaupa dísilrafstöð að Stóru-Sandvík sem er hérna alveg hjá og þeir gætu þá selt okkur rafmagn.

Það varð úr að 1946 tók faðir minn þá ákvörðun að láta Kaupélag Árnesinga leggja raflögn um allt íbúðarhúsið sem var gerð fyrir rafveiturafmagn. Það tók 3 vikur haustið 1946 og kostaði heilmikið fé. Svo mikið að faðir minn sagði móður minni og okkur krökkunum að nú yrðu allir að spara. Svo fengum við rafmagn frá Stóru-Sandvík. Rafmagnið frá rafstöðinni í Stóru-Sandvík var þrælöruggt en gallinn var að það var slegið af klukkan hálfellefu á kvöldin. Þeir Sandvíkurbræður voru kvöldsvæfir og þegar síðasti maður vildi fara að sofa varð að taka rafmagnið af. Þó man ég eina undantekningu.

Hingað kom einu sinni hátt aktaður maður og var hér næturgestur. Foreldrar mínir vildu halda honum góða kvöldveislu með koníaki og herlegheitum en leist ekki á að rafmagnið yrði slegið af klukkan hálfellefu. Þá var hringt fram að Stóru-Sandvík með sæmilegum fyrirvara og úr varð að einn bræðranna, Ögmundur Hannesson, kom hingað og var boðið til veislunnar. Svo þegar allir höfðu fengið nægju sína af góðum veitingum og gesturinn vildi fara að sofa kvaddi Ögmundur einhvern tíma um miðnæturleytið, fór heim og sló rafmagninu af. Þetta er dæmi um að það fylgdi stundum böggull skammrifi," segir Páll. En ljósið frá Stóru-Sandvík var aðeins bráðabirgðalausn því Sogsrafmagnið var á næsta leiti. Og það breytti mörgu fyrir marga.

Sogsrafmagnið fyrst í Sandvík vegna lagna í húsunum
"Nú kemur að því að mikið baráttumál kemst í gegn," heldur Páll áfram. "Að leggja Sogsrafmagn eða rafmagn, sem framleitt er í virkjuninni við Sog, niður að Stokkseyri, Eyrarbakka og Selfossi. Vorið 1946 voru samþykkt raforkulög og unnið eftir þeim að rafvæðingu þessara staða. Lína komst að Selfossi og fór þaðan niður að Eyrarbakka og Stokkseyri. Og þá kom í ljós að tveir bæir á leiðinni höfðu fullkomna aðstöðu til að taka á móti Sogsrafmagni. Það voru Litla- og Stóra-Sandvík og þar hafði það sannast sem Magnús í Volta spáði. Mér er líka sagt að þetta hafi verið tilraunaverkefni með sveitabæi eða hvernig rafveitan tæki sig út á sveitabæjum. En það, sem mér finnst merkilegt, er það að bæirnir féllu ekki undir Rafveitu Selfoss heldur beint undir Rafmagnsveitur ríkisins og hefur verið svo síðan.

Ég man svolítið eftir þessu sumri, 1947. Það var leiðindarigningarsumar, þó ekki eins og rosasumrin 1949 og 1955. Það var mikill fyrirgangur á túninu og mannaferðir í marga daga. Staurar voru grafnir niður og settar upp línur og svo var allt í einu farið að gera undirstöðu að litlu húsi og ofan á þá steypu kom glæsilegt hús með stálklæðningu sem menn kölluðu Toppstöð. Eitt tún hérna var þess vegna kallað Toppstöðvarstykki. En þarna var verið að veita rafmagninu úr háspennunni og lækka spennuna svo hún yrði hæfileg heim á bæina. Ég man líka eftir forblautum tjöldum sem rafmagnsmennirnir höfðu í kringum tengingar og gallaklæddir raflínumenn þrömmuðu hér um allt. Svo kom rafmagn inn í ágústmánuði og var þriggja fasa.

Með rafmagninu breyttist margt en þá kom meðal annars rafmagnseldavél og þvottavél og suðupottur. Eldavélin leysti AGA koxvél af hólmi en koxvélin hafði komið í stríðslok og brenndi koxi en áður var bara sóðaleg kolaeldavél. Þvottavélin kom nokkuð fljótt og svo komu raflampar um allt og alltaf var verið að gefa lampa í jólagjafir. Svo kom mjaltavél í fjósið og hún var drifin með rafmagni. Með því að hafa þriggja fasa rafmagn gátum við knúið súgþurrkunarblásara sem var settur upp næsta sumar og árið á undan var sett upp súgþurrkun í Stóru- Sandvík.

"Nú, við komum heim með rafmagnið"
Auðvitað vakti það margar spurningar og mikla öfund þegar Sogsrafmagnið komst heim á tvo bæi í sveitinni en aðra ekki. Faðir minn var orðinn oddviti Sandvíkurhrepps 1947 og hann beitti sér af alefli fyrir því að rafvæða alla sveitina. Hann náði góðri samvinnu við Gísla Jónsson, oddvita á Stóru-Reykjum í Hraungerðishreppi, sem er næsta sveit austan við Selfoss, og saman fóru þeir marga ferðina til Reykjavíkur að vinna að þessu máli. Ég man það að á útmánuðum 1950 fékk ég far með þeim suður í jeppa Sigfúsar Öfjörð sem var bílstjóri þeirra. Mitt erindi til Reykjavíkur var auðvitað miklu ómerkilegra en ég fór að fá fyrstu gleraugun mín. Á leiðinni til baka voru karlarnir óvenjukátir og mörgum árum seinna spurði ég föður minn að því hvað þeir hefðu gert í þessari ferð. "Nú, við komum heim með rafmagnið," svaraði hann. Þeir höfðu fengið lokaloforðið í þessari ferð.

Flestir bæir í báðum þessum sveitum fengu svo rafmagnið 1950 og þeir síðustu 1954 en fyrstu árin var fjarlægðarmark sem síðan var lagfært. Hreppsfélögin tóku mikinn þátt í þessari framkvæmd og munu hafa kostað hana að 4/10 hlutum. Þegar rafmagnið var lagt um alla sveit voru menn óhressir með að fá ekki þriggja fasa rafmagn heim á alla bæina en, eins og áður sagði, var það bara lagt á tvo fyrstu bæina en einhvern tíma á minni oddvitatíð miðri, sem stóð frá 1970- 1998, kom hreppurinn að þessum málum með því að greiða hlutfallslega kostnaðinn við það að menn keyptu þriðja fasann en það gat verið mjög dýrt. Sex til átta bændur lagfærðu þá hjá sér rafmagnsmálin. Þá lifði maður það loks að allir sátu við sama borð í rafmagnsmálum 40 árum seinna en þeir sjálfir hefðu viljað hafa en þriggja fasa rafmagn er nauðsyn fyrir orkufrekar vélar eins og víða eru og á flestum bæjum til sveita."

Páll segir að rafmagninu hafi alls staðar verið vel fagnað og það þarf vart að taka það fram að enginn amaðist við rafmagnsstaurum, hvar sem þeir voru reistir. Menn vissu hvað þetta gilti og þegar rafveitur komu voru víða haldnar ljósahátíðir.
Sveitarfélögin héldu slíkar hátíðir og á þeim voru fluttar ræður og ljósin látin loga. Til gamans segir Páll að lokum frá því að þrír aukastaurar hafi verið reistir í Litlu-Sandvík vegna lagnar að súgþurrkuninni. "Svo liðu 25 ár en þá voru staurarnir teknir og allt sett í jörð. Þá ætluðu raflínumennirnir í burtu með staurana en það vildi faðir minn ekki. Hann sagðist eiga staurana og framvísaði því til sönnunar 25 ára gömlum reikningum."

[ til baka ]