Forsíða   /   Jóhannes Reykdal   /   Fjarðarsel   /   Sogsvirkjun   /   Dagskrá   /   Greinar    

Innlegg í umræðu um framtíðarnýtingu orkulindanna

Ríkisstjórnin samþykkti árið 1997 framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Í tengslum við þessi áform var ákveðið að gerð skyldi "rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma." Nýlega kom út skýrsla um 1. áfanga rammaáætlunarinnar og segir Sveinbjörn Björnsson, formaður verkefnisstjórnar, að hún geti m.a. nýst stjórnvöldum við mótun framtíðarstefnu um nýtingu orkulindanna.

Í greinargerð iðnaðarráðherra frá árinu 1999 kemur fram að markmið rammaáætlunarinnar sé að "leggja mat á og flokka virkjunarkosti til raforkuframleiðslu, jafnt vatnsafls og háhita, með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði." Verkefnisstjórn undir forystu Sveinbjörns Björnssonar, fyrrverandi háskólarektors, skilaði í lok nóvember á síðasta ári skýrslu um 1. áfanga áætlunarinnar. Í þessum áfanga voru teknir fyrir 35 virkjunarkostir, einkum í jökulám með miðlunarlón á hálendinu og jarðvarmavirkjanir nærri byggð. "Viðbrögð við skýrslunni hafa verið mjög góð og teljum við að þar skipti miklu máli að verkefnið var mjög vel kynnt meðan á því stóð," segir Sveinbjörn. "Verkefnisstjórnin lagði áherslu á það að fólk gæti fylgst með hvernig málin voru að þróast og séð niðurstöðurnar fæðast ef svo má að orði komast. Þær voru því ekki eins mikið nýnæmi og ella hefði verið. Upplýsingar um verkefnið voru birtar reglulega á heimasíðu Landverndar og við teljum að Landvernd hafi gegnt sínu kynningarhlutverki mjög vel."

Matsaðferðir ákveðnar fyrirfram
Sveinbjörn segir að mikill tími hafi í upphafi farið í að móta þá aðferðafræði sem mat á virkjunarkostum byggðist á. "Við lögðum áherslu á það að velja fyrirfram þær viðmiðanir sem yrðu notaðar í matsferlinu. Leikreglurnar áttu að liggja fyrir áður en farið yrði af stað í vinnuna. Þetta gerðum við til að tryggja að allt yrði mælt á sömu stiku og til að koma í veg fyrir að persónuleg sjónarmið hefðu áhrif á útkomuna í einhverjum tilvikum. Segja má að vinna okkar fyrstu tvö árin hafi farið í þetta." Verkefnið fólst í því að meta virkjunarkostina
35 með tilliti til áhrifa hugsanlegra virkjana á umhverfi, efnahagslíf og samfélag í víðu samhengi. "Verkefnisstjórninni til halds og trausts skipuðum við fjóra svokallaða faghópa sem var falið að fara yfir virkjunarkostina, hver frá sínum sjónarhóli. Þrír þeirra fjölluðu um áhrif hugsanlegra virkjana á umhverfi, náttúrufar, minjar, útivist, hlunnindi, efnahagslíf, atvinnulíf og byggðaþróun. Sá fjórði fékk það hlutverk að meta orkugetu mismunandi virkjunarkosta og stofn- og rekstrarkostnað þeirra. Að auki leitaði verkefnisstjórnin eftir samráði við ýmsa hagsmunahópa og var Landvernd falið að hafa umsjón með því."

Virkjunarkostir flokkaðir
aghóparnir gáfu virkjunarkostunum mismunandi einkunnir og á grundvelli þeirrar einkunnagjafar voru reiknaðar út þrenns konar vísitölur; fyrir umhverfisáhrif, heildarhagnað og arðsemi. Vísitala umhverfisáhrifa er mjög víðtækur mælikvarði og metur áhrif virkjunarkosts á gróðurfar, landslag, minjar, útivist, hlunnindi o.fl. Til einföldunar var ákveðið að flokka niðurstöður vísitöluútreikninga í fimm flokka og voru flokkarnir auðkenndir með bókstöfunum a - e. Þannig fer t.d. virkjunarkostur, sem telst hafa lítil áhrif á umhverfið, í a-flokk umhverfisáhrifa en virkjunarkostur, sem telst hafa mikil áhrif á umhverfið, í e-flokk umhverfisáhrifa o.s.fv. "Með þessu móti var unnt að bera saman virkjunarkostina á einfaldan og aðgengilegan hátt. Útkoman var sú að í umhverfisflokk a lentu 19 virkjunarkostir af þessum 35, sem við höfðum til skoðunar, og 9 í umhverfisflokk b. Við teljum að virkjanir, sem falla í umhverfisflokka a og b, hafi í raun svo lítil áhrif á umhverfið að ekki þurfi að grípa til viðamikilla mótvægisaðgerða, sem svo eru nefndar, í tengslum við þær. Hins vegar er í skýrslunni varað við því að ef byggja eigi í virkjanir í umhverfisflokkum c - e þurfi að gera ráðstafanir til að draga úr skaðlegum áhrifum," segir Sveinbjörn.

Búið að virkja 19% af orkugetu vatnsafls
Sveinbjörn segir að eins og staðan sé nú sé búið að virkja um 19% af heildarorkugetu vatnsafls í landinu, þ.e. af þeirri vatnsorku sem talið er bæði tæknilega mögulegt og hagkvæmt að virkja. "Þær vatnsaflsvirkjanir, sem heimilaðar voru á síðasta ári, munu tvöfalda þetta hlutfall og vegur Kárahnjúkavirkjun þar vitanlega þyngst. Ef allar þær vatnsaflsvirkjanir, sem búið er að heimila nú, verða byggðar mun nýtingin fara upp í um 35% orkugetunnar. Hins vegar er hlutfallið mun lægra fyrir jarðhitann. Eins og staðan er núna er aðeins búið að nýta um 5% af heildarorkugetu jarðhita en það hlutfall mun fara upp í 7% ef farið verður í að byggja þær jarðhitavirkjanir sem búið er að heimila. Ef þær virkjanir, sem verkefnisstjórnin flokkaði í umhverfisflokka a, b og c, verða byggðar munu bætast við 12,7% í vatnsaflinu og hvorki meira né minna en 41% í jarðhitanum," segir Sveinbjörn.

Jökulsárvirkjun mjög umdeild
Í fyrsta áfanga rammaáætlunarinnar var fjallað um nokkra virkjunarkosti sem ljóst er að eru mjög umdeildir, t.d. virkjun Jökulsár á Fjöllum. "Það er ljóst að Jökulsárvirkjun hefði í för með sér talsvert mikil áhrif á náttúrufar. Í fyrsta lagi þyrfti að leggja stórt landsvæði við Arnardal undir miðlunarlón. Í öðru lagi þyrfti að grafa mikil göng til að leiða vatnsrennslið niður að stöðvarhúsum við Jökuldal og Fljótsdal. Í þriðja lagi, og það sem e.t.v. skiptir mestu máli, myndi virkjun hafa í för með sér að rennsli í ánni myndi minnka um allt að fjórðung á sumrin og jafnvel meira á veturna, með tilheyrandi áhrifum á Dettifoss og þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum. Til viðbótar við þetta myndi vatnsmagn og framburður aukast mjög í Lagarfljóti sem gæti haft skaðleg áhrif á náttúrufar á Fljótsdalshéraði. Hins vegar yrði virkjun Jökulsár á Fjöllum líklega mjög arðsöm framkvæmd. Það er í öllu falli ljóst að framkvæmdin yrði mjög umdeild líkt og gildir um fleiri virkjanir á þessu svæði," segir Sveinbjörn.

Nýtist stjórnvöldum við stefnumótun
Í skýrslunni kemur fram að líta megi á niðurstöður 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem grunn fyrir mat á frumáætlunum virkjana, bæði hagkvæmni þeirra og helstu umhverfisáhrifum. Stjórnvöld muni geta nýtt niðurstöðurnar sem grundvöll að stefnumörkun í orku- og náttúruverndarmálum til framtíðar. Einnig muni niðurstöðurnar gagnast stjórnvöldum við mat á umhverfisáhrifum skipulagsáætlana og margs konar skipulagsvinnu ríkis og sveitarfélaga. "Við teljum að hér sé komið fram mikilvægt innlegg í umræðu um framtíðarnýtingu þeirra náttúruauðlinda sem felast í fallvötnum og jarðvarma hér á landi. Ef stjórnvöld vilja marka sér eiginlega stefnu um orkuöflun og virkjanir þá er ljóst að skýrslan yrði grundvallarplagg.

Þetta hafa t.d. stjórnvöld í Noregi gert. Þar samþykkti Stórþingið bindandi áætlun þar sem virkjunum var skipt í þrjá flokka. Í fyrsta flokknum voru virkjanir sem stjórnvöld voru reiðubúin að fallast á án teljandi athugasemda. Í öðrum flokki voru virkjanir sem álitið var að hefðu svo mikil umhverfisáhrif að a.m.k. væri rétt að bíða með þær þar til búið væri að ljúka við að framkvæma allar hugmyndir í fyrsta flokki. Loks voru í þriðja flokkinn settar virkjanir sem ólíklegt er að stjórnvöld myndu fallast á að yrðu reistar og eru á svæðum sem jafnvel er talið líklegt að verði friðuð. Þetta er ein hugsanleg leið til að nýta niðurstöður þeirra vinnu sem við höfum innt af hendi. Mér finnst líklegt að þrýstingur muni á næstunni aukast á hérlend stjórnvöld um að þau móti bindandi áætlun um framtíðina í þessum málum. Í þessu sambandi er þó nauðsynlegt að hafa hugfast að orkufyrirtækin miða framkvæmdir við það hver eftirspurnin er á hverjum tíma.

Það má ekki gleymast að það er markaðurinn fyrir orkuna sem ræður því hvort er virkjað eða ekki. Ef stór orkukaupandi hefur áhuga á að setja upp starfsemi hér á landi getur valið staðið milli þess að byggja eina stóra virkjun eða margar litlar til að mæta þörfinni. Enda þótt umhverfisáhrif af byggingu stórvirkjunar kunni að vera umtalsverð geta umhverfisáhrif af byggingu margra minni virkjana verið jafnvel enn meiri. Þetta verða menn að hafa í huga," segir Sveinbjörn.

Mikið verk óunnið
Í 2. áfanga rammaáætlunarinnar er áætlað að taka fyrir ýmsar nýjar virkjunarhugmyndir sem lítt hafa verið ræddar hingað til. Flestar eru þessar hugmyndir skemmra á veg komnar en þær hugmyndir sem fjallað var um í 1. áfanga. "Það er mikið verk óunnið í sambandi við 2. áfanga og við gerum því ráð fyrir að nokkur ár geti liðið áður en skýrsla um hann fær að líta dagsins ljós. Hins vegar er ljóst að verklag og ýmislegt annað, sem mótað var í 1. áfanga, mun nýtast áfram og að búið er að leggja traustan grunn að áframhaldandi vinnu," segir Sveinbjörn að lokum.

 

[ til baka ]