Forsíða   /   Jóhannes Reykdal   /   Fjarðarsel   /   Sogsvirkjun   /   Dagskrá   /   Greinar    

Rafmagnssparnaður
- Hvað er hægt að gera til að spara rafmagn?

Rafmagnsnotkun eykst sífellt á íslenskum heimilum og stöðugt bætast við ný heimilistæki. Ýmislegt er unnt að gera til þess að draga úr rafmagnsnotkun og ef fólk fylgir heilræðunum hér að neðan má auðveldlega lækka rafmagnsreikninginn.

Slökkvið ljósin
Ljós loga oft að óþörfu þar sem enginn hefst við. Þeir, sem gleyma að slökkva á eftir sér, eru nánast að kasta peningunum út um gluggann.

Notið rétt ljós og réttar perur
Við val á ljósum er nauðsynlegt að hafa í huga hversu mikillar lýsingar er þörf. Veljið ljós sem gefa þá lýsingu sem þið þurfið og notið ekki sterkari perur en nauðsynlegt er því orkunotkunin eykst eftir því sem peran er sterkari. Notið flúrpípur þar sem þess er kostur, þær gefa mikla birtu án þess að eyða miklu rafmagni. Gætið þess að skermar og ljósakúplar dragi ekki úr birtunni.

Uppþvottavélin
Fyllið uppþvottavélina. Hún notar jafnmikla orku hvort sem mikið eða lítið er þvegið í einu. Notið sparnaðarhnappinn (E) eins oft og kostur er. Potta og önnur áhöld, sem taka mikið rými, er ekki hagkvæmt að þvo í uppþvottavélinni. Þvoið upp sem fyrst svo að matarleifar nái ekki að þorna. Þá nægir styttra þvottakerfi og lægra hitastig.

Þvottavélin
Fyllið vélina af þvotti. Það kostar álíka mikið að þvo lítinn og mikinn þvott. Veljið ekki of hátt hitastig. Vélin notar 30% minni orku ef hitinn er lækkaður um þriðjung. Sleppið forþvotti ef þvotturinn er lítið óhreinn. Það sparar 20% orku. Skolun með köldu vatni fyrir þvott getur sparað orku.

Þurrkarinn
Vindið þvottinn sem best áður en hann er settur í þurrkarann og hreinsið ló úr síunni eftir hverja notkun. Setjið hæfilegt magn af þvotti í þurrkarann, hvorki of mikið né of lítið. Hvort tveggja veldur meiri orkunotkun en ef þurrkað er hæfilegt magn í einu. Notið sparnaðarstillingu þegar henni verður við komið.

Örbylgjuofninn
Tími og orka sparast þegar matreitt er í örbylgjuofni. Það tekur til dæmis 7 mínútur (0,14 kWh) að matreiða 250 g af kartöflum í örbylgjuofni en 25 mínútur (0,22 kWh) á eldavél. Notið eldunaráhöld sem henta örbylgjuofninum. Sjóðið eða hitið matinn í lokuðum ílátum, þannig helst hitinn betur á matnum og orka sparast. Með því að nota lítið vatn þarf styttri suðutíma. Oft er hægt að sleppa vatninu alveg þegar matreitt er í örbylgjuofni.

Eldavélin
Gætið þess að potturinn sé hæfilega stór á helluna. Ef pottur er 2 sentímetrum minni en hellan sem hann er á fara 20% orkunnar til spillis. Ósléttur botn á potti eða pönnu getur valdið 40% meiri rafmagnsnotkun. Notið þétt lok á pottinn og takið það ekki af meðan soðið er. Loklaus pottur þarf tvöfalt meiri orku en lokaður. Það þarf tvisvar til þrisvar sinnum meiri orku til að glóðarsteikja í ofninum en að steikja á hefðbundinn hátt.

Frystikistan
Æskilegt er að frystikistan sé á köldum stað. Hún notar 5% minna rafmagn fyrir hvert stig sem umhverfishitinn er lægri. Hæfilegt hitastig í kistunni er um 18°C. Rafmagnsnotkunin eykst um 5% fyrir hvert stig sem hitinn er lægri. Gætið þess að kæliristin á bakhlið kistunnar sé hrein og að nóg loft geti leikið um hana. Innilokuð og rykug kælirist getur valdið 30% meiri rafmagnsnotkun. Látið frystikistuna ekki ganga tóma. Tóm kista notar jafnmikið rafmagn og full.

Ísskápurinn
Hæfilegt hitastig í ískápnum er 4-5°C. Rafmagnsnotkun eykst um 4% fyrir hvert stig sem hitinn er lækkaður. Gætið þess að loftræsting sé nægjanleg bak við kæliskápinn. Léleg loftræsting getur valdið 5-10% meiri rafmagnsnotkun. Kæliskápa, sem ekki eru með sjálfvirka afhrímingu, þarf að þíða reglulega.

Kaffivélin
Það þarf um 30% minni orku ef kaffi er lagað í kaffivél í stað þess að nota hraðsuðuketil og hella upp á á gamla mátann. Notið hitakönnu til að halda kaffinu heitu en ekki hitaplötu kaffivélarinnar.

Gleymd notkun
Mörg heimilistæki nota rafmagn jafnvel þó að þau séu ekki í gangi. Þetta eru tæki sem búin eru fjarstýringu og eru tilbúin til að hlýða skipun frá henni, t.d. sjónvörp, hljómtæki, myndbandstæki o.fl. Öll þessi tæki auka orkunotkunina. Þó svo að þau taki lítið afl er oftast kveikt á þeim allan sólarhringinn allan ársins hring. Sem dæmi má nefna að myndbandstæki, sem stjórnað er með fjarstýringu, notar um 100 kWh á ári. Það að slökkva alveg á myndbandstækinu hefur bæði kosti og galla. Ef slökkt er alveg á tækinu sparast þessar 100 kWh en á móti þarf oft að endurstilla klukku og dagsetningu þegar kveikt er næst.