Forsíða   /   Jóhannes Reykdal   /   Fjarðarsel   /   Sogsvirkjun   /   Dagskrá   /   Greinar    

Rafsuða
- Leiðbeiningar um eldun frá 1937

Þegar rafmagnið hóf innreið sína þurfti að kenna fólki að nota það, því rafmagnið var hægt að nýta á fleiri vegu en til lýsingar. Árið 1937 gaf Rafmagnsveita Reykjavíkur út bækling gagngert til að kenna húsmæðrum að elda við rafmagn.

Bæklingurinn var að norskri fyrirmynd og hafði reynst vel þar í landi. Nú á dögum þykir bæklingurinn hin besta skemmtilesning eins og sjá má á þessum upphafsorðum hans:

Matreiðslan er mikill þáttur í heimilisstörfum kvenna. Allir munu óska, að hún verði sem auðveldust og bezt. Reynslan sýnir, að þar getur rafmagnið verið ágæt aðstoð. Það getur mjög bætt mateiðsluna. Með því að allir gera sér þetta ekki ljóst, hefir þessi leiðarvísir verið ritaður. Hann á að kenna mönnum að nota rafmagnsstóna samkvæmt nýjustu reynslu. Reynt hefir verið að gera hann svo stuttan og skýran, sem unnt var, og því er aðeins drepið á aðalatriðin, til þess að skýra hinar nýju aðferðir. Hefjist handa, sjóðið og steikið eins og hér er lýst, og þér munuð komast að raun um nýja kosti, sem rafmagninu fylgja; þér munuð sanna, að matreiðsla með réttri notkun rafmagnsins gengur að óskum. Ætlið þér að láta það, sem hér er sagt, "fara inn um annað eyrað og út um hitt?". Ekki trúum vér því. Hver húsmóðir kýs auðvitað, að mateiðslan gangi "eins og í sögu'" og takist vel. Rafmagnið styður að því.

Síðan á dögum Evu hafa konur vitað, að stöðuga gát þurfti að hafa á því, er soðið var við eld, að loginn -1000-1500 stiga heitur - eyðilegði ekki matinn. Þess vegna urðu þær að sjóða matinn í miklu vatni. Þursuða á loga eyðilagði matinn samsundis. En maturinn fer ekki vel á því að sjóða í öllu þessu vatni og við hin háu og ójöfnu hitatig logans. Næringar- og bragðefni sjóðast út í vatnið - og síðan er vatninu oft helt í vaskinn!

Rafsuðuhellan
Maturinn verður beztur, þegar hann er soðinn við hæfilegan, jafnan og mildan hita með litlu vatni (gufusuða) eða seyddur í safa sínum án þess að bæta vatni við. Það er hægt á rafsuðuhellunni. Hún gefur frá sér til pottsins lágan, jafnan og hentugan hita, þegar soðið er. Með einu taki á rofann - með því að færa hann frá 3 ti1 1, þegar sýður - helzt hitastigið svo lágt, að bruni, ofsuða og bullsuða getur ekki átt sér stað, og maturinn fær einmitt þá suðu, sem hann þarf til þess að verða góður. Það má sjóða með litu vatni ofurlítill vatnssopi nægir til að framleiða þá gufu, er þarf til suðunnar. Og mörg efni, sem nóg vatn er í, má - eins og síðar verður sýnt - seyða í safa þeirra, án þess að bæta vatni við.

Mörg húsmóðir (er hugsar til logans) verður tortryggin, þegar henni er sagt, að sjóða kartöflur með 1/2 bolla af vatni í pottinum, og henni bregður eflaust við, fyrsta sinn er hún sér þorskstykkin lögð í pottinn og soðin vatnslaust. En þegar hún hefir reynt þetta og séð árangurinn, skilst henni eflaust, að jafnari, mildari og hentugri suðuhiti, en rafmagnið veitir, er ekki til, og að rafsuðuhellan er ágætt tæki til að búa til, fljótt og hæglega, góðan og saðsaman mat. Og henni verður sjálfsagt að orði: Að ég skuli ekki hafa reynt þetta fyr! Að sjóða alveg rétt við rafmagn er aðallega fólgið í því að fylgja þessum reglum: Hafið lítið vatn til suðunnar - oft er maturinn seyddur, án þess að bæta vatni við. Suðunni er fljótt komið upp með því að stilla á 3 (sterkan hita), þangað til sýður (gufar), síðan er soðið áfram með rofann á 1, við og við líka með rofann á 0. Hafið gott lok á pottinum. Hafið pott með léttum, þykkum botni og helzt með sama þvermáli og rafsuðuhellan.