Forsíða   /   Jóhannes Reykdal   /   Fjarðarsel   /   Sogsvirkjun   /   Dagskrá   /   Greinar    

Hugmyndin varð til í háloftunum
- Rannveig Rist, forstjóri álversins í Straumsvík

Ævintýrið um álverið í Straumsvík hófst í háloftunum yfir Íslandi og það hefði hugsanlega ekki orðið að veruleika ef ský hefðu verið á himni. Um borð í farþegaþotu á leið til Bandaríkjanna voru tveir af ráðamönnum svissnesks álfyrirtækis. Þar sem þeir sátu í vélinni og virtu fyrir sér landið úr lofti sáu þeir Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu. Og þá kviknaði hugmyndin. Þar sem svona mikið er af jöklum hlýtur að vera gnótt af vatnsföllum sem hægt er að virkja. Þetta var upphafið af virkjunum Þjórsár við Búrfell, virkjuninni sem enn sér álverinu fyrir raforku.

Fyrirtækið hét áður Íslenska álfélagið en ber nú nafnið Alcan á Íslandi. Fyrirtækið er stærsti einstaki orkukaupandinn hér á landi og á síðasta ári nýtti Alcan 36% af allri orkuframleiðslu landsins. Rannveig segir að álverið hefði aldrei verið reist á sínum tíma nema vegna orkunnar sem hér er nóg af. "Það er ekki nóg að orkan sé til staðar, heldur er jafnvægi og stöðugleiki orkunnar forsenda þess að hægt sé að vinna ál. Fyrstu árin lenti fyrirtækið í ýmsum vandræðum, m.a. vegna ístruflana og klakahlaups í Þjórsá auk þess sem rafmagnið virtist stundum af skornum skammti á álagstímum, t.d. þegar allir landsmenn voru að elda jólamatinn. Þetta heyrir hins vegar sögunni til og er nú komið í gott horf." Rannveig segir að rafmagnsleysi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið og til útskýringar líkir hún kerunum við grautarpott á eldavél. "Ef rafmagnið fer byrjar fljótandi álið að storkna á skömmum tíma og það er mikil vinna að ná því í burtu, hreinsa kerin og koma framleiðslunni af stað aftur. Ef við hins vegar vitum af rafmagnsskorti með einhverjum fyrirvara þá er hægt að laga reksturinn smám saman að því og minnka framleiðsluna. Sú staða hefur komið upp nokkrum sinnum, t.d. árið 1998 þegar þurfti að slökkva á kerum þegar lítið vatn var í uppistöðulónum á hálendinu."

Úr vatni í virkjanir
Rannveig Rist hefur tengst öllum grunnþáttum álframleiðslunnar. Hún vann með föður sínum, Sigurjóni Rist, við vatnamælingar og vann síðan við Búrfellsvirkjun áður en hún hóf störf í Straumsvík. Við síðustu stækkun álversins fékk fyrirtækið að gjöf frá Landsvirkjun gamlan kunningja Rannveigar úr Búrfellsvirkjun; nefnilega eitt af túrbínuhjólum virkjunarinnar. Hjólið skipar nú heiðursess á lóð álversins og er eitt af kennileitum þess. Þegar fyrirtækið var stofnað árið 1969 var framleiðslugeta þess 33.000 tonn á ári. Síðan þá hefur verksmiðjan verið stækkuð fjórum sinnum, síðast árið 1997, og framleiðslugetan nú er um 176.000 tonn á ári.

En sér Rannveig fram á stækkun verksmiðjunnar í náinni framtíð?

"Það er vel mögulegt að stækka verksmiðjuna, framleiðslan gengur mjög vel hjá okkur og við framleiðum hér um 200 vörutegundir. Markaðurinn hlýtur hins vegar að ráða, því það er enginn hagur í því að framleiða ál ef eftirspurnin er ekki næg. Nú hefur Alcan Inc., eigandi verksmiðjunnar í Straumsvík, nýverið fest kaup mjög öflugu frönsku álfyrirtæki og framleiðir þar með miklu meira ál í Evrópu en áður. Það gæti frestað enn frekar ákvörðun um framtíðarþróun hér. En við höldum okkar striki og einbeitum okkur að því að gera framleiðsluna eins hagkvæma og kostur er. Eftir að verksmiðjan var stækkuð árið 1997 var framleiðslugetan 162.000 tonn á ári. Með breyttum áherslum í kerrekstri, tæknilegum lagfæringum og straumhækkunum hefur okkur hins vegar tekist að auka framleiðslugetuna upp í 176.000 tonn á ári og það án mikilla fjárfestinga. Þetta sýnir hve verksmiðjan er byggð á góðum grunni, því þær aðgerðir sem við höfum gripið til síðustu ár hefðu annars verið ómögulegar."

Hjá Alcan á Íslandi eru um 500 starfsmenn og það hefur vakið athygli hvað starfsmannaveltan er lág. Starfsmönnunum virðist líða vel og lítið er um mannabreytingar. Rannveig segir starfsandann mjög góðan "og sem dæmi um það má nefna að þegar hafa vel á annað hundrað starfsmenn fengið afhent gullúr, en það fá þeir eftir 30 ára starf. Þetta er ótrúlega há tala miðað við að fyrirtækið tók til starfa árið 1969 og er aðeins rúmlega þrítugt."

200 vörutegundir
Þú segir ykkur framleiða 200 vörutegundir, í augum leikmanns virðist álið allt vera eins?

"Já, en það er ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Við höfum lagt áherslu á vöruþróun í stað þess að framleiða eingöngu hráál sem flutt er utan til nánari vinnslu. Markaðurinn kallar eftir mörgum tegundum af áli. Það er til að mynda ekki notað sams konar ál í lyfjaumbúðir og klæðningar á bíla, svo dæmi sé tekið. Við framleiðum sérstakt ál í geisladiska, aðra tegund sem notuð er í ljóskastara, ál í húsaklæðningar og áfram mætti telja. Við erum með mjög sérhæfða álframleiðslu enda verðum við að laga okkur að markaðnum og framleiða auk þess eins verðmæta vöru og kostur er."

En hvað með nánari vinnslu á áli hérlendis. Er ekki kominn tími til þess að hér rísi verksmiðja sem framleiðir úr álinu?
"Ég held að það verði a.m.k. ekki á okkar vegum í náinni framtíð. Það er hentugra að flytja álið út til mjög sérhæfðra verksmiðja, sem eru nálægt markaðnum. Árleg framleiðslugeta okkar er líka margfalt meiri en þörfin er innanlands. Ef við byrjuðum að framleiða fyrir íslenskan markað á miðnætti á gamlárskvöld þá værum við búin að anna eftirspurn ársins áður en þjóðin færi að sofa á nýársnótt."