Forsíða   /   Jóhannes Reykdal   /   Fjarðarsel   /   Sogsvirkjun   /   Dagskrá   /   Greinar    

Sogið
- Orkuuppspretta Reykjavíkur

Sogið, afrennsli Þingvallavatns, er vel fallið til virkjunar frá náttúrunnar hendi. Það rennur nítján kílómetra leið um tvö stöðuvötn, Úlfljótsvatn og Álftavatn uns það sameinast Hvítá í vatnsmestu á landsins, Ölfusá. Yfirborð Úlfljótsvatns er 22 metrum lægra en Þingvallavatns og nefnist sá hluti árinnar Efra-Sog. Efsti foss fyrir neðan Úlfljótsvatn er Ljósafoss en fallhæð hans er 13 metrar Nokkru neðar í ánni eru Írafoss og Kistufoss.

Athafnasamir menn fengu snemma augastað á Soginu sem virkjunarkosti og þegar fyrir aldamótin 1900 var stofnað félag um slíkar framkvæmdir. Árið 1917 hóf Reykjavíkurbær að festa kaup á vatnsréttindum jarða við Sogið enda ljóst að áin yrði framtíðarorkuuppspretta bæjarins.

Eldavélavæðingin
Fyrsta virkjunin í Sogi var Ljósafossvirkjun sem tekin var í notkun 1937. Tilkoma virkjunarinnar gjörbylti raforkumálum íbúa höfuðstaðarins. Áður hafði rafmagnið nánast einvörðungu verið nýtt til ljósa og lítils háttar vélareksturs en með Sogsrafmagninu margfaldaðist framleiðslugetan í einu vetfangi. Til að standa undir fjárfestingunni réðust bæjaryfirvöld því í átak þar sem almenningur var hvattur til að festa kaup á eldavélum frá fyrirtækinu Rafha í Hafnarfirði. Bauðst viðskiptavinum Rafmagnsveitunnar að kaupa eldavélarnar með afborgunum en það þótti nýlunda í viðskiptum.

Á næstu árum var Ljósafossvirkjun stækkuð í áföngum og lauk framkvæmdum að fullu árið 1944. Sama ár lagði Rafmagnsveitan fram áætlun um framtíðarskipan orkumála. Var þar stungið upp á ýmsum kostum: fullvirkjun Sogsins, virkjun Botnsár í Hvalfirði, byggingu olíuknúinna rafstöðva í bæjarlandinu og jarðgufuvirkjunum í Hengli eða Krýsuvík. Niðurstaðan varð sú að virkja áfram í Soginu og reisa olíuknúna gufuaflsstöð við Elliðaár. Fyrstu áætlanir um virkjun Sogsins gerðu ráð fyrir að næst á eftir Ljósafossi yrði ráðist í virkjun Efra- Sogs. Þegar til átti að taka var hins vegar álitið að slík virkjun yrði of lítil. Þess í stað var ákveðið að virkja neðri Sogsfossana í einni stöð. Samhliða var hafinn undirbúningur að byggingu Toppstöðvarinnar í Elliðaárdal sem sett var upp á árunum 1946-1947.

Sogsvirkjunarlögin
Áformin um áframhaldandi virkjun Sogsins kölluðu á lagasetningu frá Alþingi. Árið 1946 voru samþykkt ný Sogsvirkjunarlög og gerðu þau ráð fyrir eignaraðild ríkisins að Sogsvirkjun, auk ríkisábyrgðar á nauðsynlegum lánum. Var miðað við að eignarhluti ríkisins yrði 50% á móti Reykjavíkurbæ þegar Sogið væri fullvirkjað. Öflun lánsfjár til virkjunarinnar var örðugleikum bundin uns Marshalláætlun Bandaríkjastjórnar kom til. Stærstur hluti fjármagnsins var fenginn að láni úr svonefndum Mótvirðissjóði sem stofnaður var í framhaldi af Marshallaðstoðinni. Oft er því haldið fram að Sogsvirkjunin hafi fengið byggingarkostnað Írafossvirkjunar að gjöf. Það er rangt því um lánsfé var að ræða - þótt vissulega hafi verið um hagstæðari lánskjör en ella var kostur á.

Íbúar Reykjavíkur fylgdust spenntir með framkvæmdum við Sog. Bærinn var í stöðugum vexti og eftir heimsstyrjöldina komust Reykvíkingar einnig í kynni við fjölmörg orkufrek heimilistæki. Á árunum 1950 til 1953 var því viðvarandi rafmagnsskortur með tilheyrandi skömmtun yfir vetrarmánuðina. Eftir að Írafossvirkjun var tekin í notkun lauk þessum skorti. Áform um stórvirkjanir á Íslandi í byrjun tuttugustu aldar tengdust oft hugmyndum um stórfellda áburðarframleiðslu, með útflutning í huga. Höfðu norskir hugvitsmenn þá nýlega uppgötvað leið til að vinna köfnunarefni úr andrúmsloftinu á raforkufrekan hátt. Ekki leið þó á löngu uns nýjar vinnsluaðferðir gerðu þessa tækni óhagkvæma.

Á fjórða áratugnum var á nýjan leik hreyft við hugmyndum um íslenska áburðarverksmiðju að frumkvæði Skipulagsnefndar atvinnumála eða "Rauðku" sem svo var kölluð. Þau áform voru minni í sniðum enda einungis ætlunin að framleiða fyrir innanlandsmarkað og spara þannig gjaldeyri.

Virkjanir og stóriðja
Ásgeir Þorsteinsson, verkfræðingur, var sérstakur áhugamaður um að ráðist yrði í byggingu áburðarverksmiðju. Hugmyndir hans gengu út á að umframorka Sogsvirkjana, utan álagstíma, yrði nýtt til framleiðslu á vetni. Vetnisbirgðir þessar myndu svo aftur sjá verksmiðjunni fyrir ódýrri raforku. Minntu áætlanir þessar helst á seinni tíma hugmyndir um að nota vetni sem geymslumiðil raforku. Hugmyndir Ásgeirs um áburðarframleiðslu komu aftur til umræðu í tengslum við virkjun Írafoss. Horfið var frá vetnisútfærslunni en þess í stað ákveðið að reisa öllu stærri verksmiðju sem gæti orðið kjölfestuviðskiptavinur virkjunarinnar. Upp frá því hafa langflestar stórvirkjanir á Íslandi tengst nýfjárfestingum í stóriðju.

Þriðja og síðasta Sogsvirkjunin var reist á árunum 1957 til 1960. Hún fékk nafnið Steingrímsstöð, kennd við Steingrím Jónsson, rafmagnsstjóra í Reykjavík og forstjóra Sogsvirkjunar. Bygging Steingrímsstöðvar tengdist meðal annars stofnun Sementsverksmiðjunnar á Akranesi sem fékk raforku frá Soginu. Virkjunin var hætt komin í flóði eftir að varnarveggur í Þingvallavatni brást á byggingartímanum en betur fór en á horfðist og engin slys urðu á mönnum.